Arnór Guðjohnsen

Var atvinnumaður í tvo áratugi, frá 1978 til 1998. Með Anderlecht í Belgíu lék hann tvo úrslitaleiki í Evrópukeppnum, gegn Tottenham árið 1983 og Sampdoria árið 1990. Árið 1987 var hann útnefndur besti leikmaður deildarinnar, auk þess sem hann var markakóngur hennar og belgískur meistari með félaginu. Hann var einnig kjörinn íþróttamaður ársins það ár. Lauk ferlinum með Örebro í Svíþjóð þar sem hann var kjörinn besti útlendingur sem leikið hafði í Svíþjóð.
Landsleikir/mörk: 73/14

 

 

Ásgeir Sigurvinsson

Varð á sínum tíma yngsti landsliðsmaður Íslands frá upphafi er hann lék með landsliðinu árið 1972, sautján ára gamall. Lék í átta ár með Standard Liege í Belgíu, fór til Bayern München árið 1981 og ári síðar til Stuttgart þar sem hann lék þar til hann hætti árið 1990. Varð þýskur meistari árið 1984, kjörinn besti leikmaður deildarinnar það árið og varð í 13. sæti í kjöri World Soccer um besta knattspyrnumann heimsins það árið. Átti glæstan landsliðsferil og er enn í dag minnst sem eins besta leikmanns Stuttgart frá upphafi.
Landsleikir/mörk: 45/5

 


Eiður Smári Guðjohnsen

Á sínum tíma yngsti landsliðsmaður Íslands (með yngri landsliðum), yngsti leikmaður efstu deildar á Íslandi og yngsti atvinnumaður Íslands er hann samdi við PSV Eindhoven sextán ára gamall og lék síðar með Ronaldo í framlínu liðsins. Meiddist illa árið 1996, kom til Íslands og fór aftur til Bolton árið 1998, þar sem hann sló í gegn og var seldur til Chelsea. Þar varð hann tvöfaldur enskur meistari og var seldur til Barcelona árið 2006 og vann alla þá titla sem hægt er að vinna með liðinu. Var fyrirliði íslenska landsliðsins og er markahæsti leikmaður þess frá upphafi.
Landsleikir/mörk: 69/24

 

 

Guðni Bergsson

Valsari í húð og hár en hann hóf ferilinn þar árið 1983 og varð Íslandsmeistari með liðinu í tvígang, árin 1985 og 1987, áður en hann gekk til liðs við Tottenham í upphafi árs 1989. Þar fór hann beint í aðalliðið og lék alls 71 leik á þeim fjórum árum sem hann var hjá félaginu.
Hann gerði stutt stopp hjá Val sumarið 1994 en gekk svo til liðs við Bolton um haustið þar sem hann lék í níu ár, lék 270 leiki og skoraði 23 mörk. Enn í dag er hann talinn einn allra besti leikmaður sem hefur leikið með Bolton frá stofnun félagsins. Hann var á sínum tíma leikjahæsti leikmaður landsliðsins þrátt fyrir fimm ára fjarveru. Hann var landsliðsfyrirliði í 30 leikjum.
Landsleikir: 80/1

 

 

Logi Ólafsson

Logi hóf þjálfaraferil sinn árið 1987 er hann þjálfaði kvennalið Vals í tvö ár en þaðan lá leiðin til Víkinga sem hann þjálfaði árin 1990-1992 og gerði liðið að Íslandsmeisturum 1991. Á árunum1993-1994 þjálfaði hann kvennalandslið Íslands og árið 1995 stýrði hann ÍA og gerði liðið að Íslandsmeisturum. Árið eftir tók hann við landsliði Íslands og stýrði þeim 1996-1997 og fór þaðan aftur til ÍA 1997 og 1998. Hann tók svo við FH og stýrði liðinu ásamt því að stýra kvennalandsliðinu árið 2000. Hann hætti hjá FH eftir tímabilið 2001 og varð aðstoðarþjálfari Lilleström í Noregi. Hann tók svo aftur við Íslenska landsliðinu eftir að hann kom heim og stýrði liðinu ásamt Ásgeiri Sigurvinssyni árin 2003-2005. Í framhaldi af því stjórnaði hann KR 2007-2010, Selfoss 2010-2012 og Stjörnuna 2013.

Hafðu samband

Endilega sendu okkur línu, við svörum eins fljótt og hægt er.

Not readable? Change text.

Sláðu inn leitarorð og ýttu á Enter